Eftir því sem byggð efldist á Sauðárkróki jókst þörf á rafmagni. Dísilrafstöð var komið upp árið 1922. Íbúar Sauðárkróks höfðu mikinn hug á að virkja Gönguskarðsá. Lög voru samþykkt á Alþingi í júní 1947 þar sem Rafmagnsveitum ríkisins var falið að reisa 1.500 ha raforkuver við Gönguskarðsá. Rafmagnsveiturnar fengu Almenna byggingafélagið til þess að sjá um mannvirki en starfsmenn Rafmagnsveitanna sáu um hönnun véla og rafbúnaðar og niðursetningu á honum.
Framkvæmdir stóðu yfir á árunum 1947-1949. Reist var steinsteypt stífla um 2 km ofan við Sauðárkrók. Frá stíflu var lögð þrýstivatnspípa, um 2.300 m löng, þar af eru 2.200 m úr tré. Innanmál er 1.350 mm og 1.200 mm. Á miðri pípu var komið fyrir jöfnunarturni (sem er þrýstivatnsturn) úr steinsteypu til þess að jafna þrýsting við snöggar álagsbreytingar. Turn þessi var sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Sjálf aflstöðin var reist í norðanverðum kaupstaðnum og þar komið fyrir 1.000 kW vélasamstæðu. Frá henni var grafinn 29 metra langur frárennslisskurður út í fjöruborð. Gönguskarðsárvirkjun tók til starfa 8. desember 1949 og samhliða því var vatnsaflsstöðin í Sauðá lögð niður.
Við stíflugerð myndaðist lítið inntakslón sem hefur litla miðlun og á veturna getur orkuvinnsla minnkað verulega eða stöðvast um langan tíma.
Árið 1961 var stöðin stækkuð, þannig að byggt var við hana og settar niður tvær MAK-dísilvélar, 1.000 ha hvor.
-Heimild frá heimasíðu RARIK.

RARIK hætti rekstri Gönguskarðsárvirkjunar árið 2007 eftir að aðrennslislögn frá henni sprakk, skammt ofan stöðvarhússins á Sauðárkróki. Virkjunin, sem var reist árið 1949, var komin til ára sinna og framleiddi um 1MW þegar mest lét. Búið er að rífa gömlu lögnina en RARIK mun áfram eiga stöðvarhúsið á Sauðárkróki, þar sem gamlir munir fyrirtækisins eru geymdir.